Arabíukonur

ARABÍUKONUR- samfundir í fjórum löndum


Arabíukonur eftir Jóhönnu Kristjónsdóttur

Arabíukonur kom út 22.október s.l. þó ekki tækist að koma henni að ráði í bókabúðir fyrr en tveimur dögum síðar. Á kápusíðu segir:
Á Vesturlöndum er iðulega dregin upp einsleit mynd af konum í arabískum samfélögum - þær eru kúgaðar, ómenntaðar og ganga allar með slæður eða hulið andlit. Jóhanna Kristjónsdóttir sem býr yfir yfirgripsmikilli þekkingu á arabaheiminum og hefur dvalið þar langdvölum hélt til fundar við konur í fjórum Austurlöndum í því skyni að kynnast stöðu þeirra og viðhorfum. Viðmælendurninir eru á ýmsum aldri og úr ýmsum stéttum, allt frá 14 ára sölustúlku til konu á ráðherrastóli. Þær búa í Sýrlandi, Egyptalandi, Óman og Jemen.
Eins og löndin fjögur bera hvert sinn svip eru konurnar hver með sínu móti, sérhver þeirra hefur sitt til málanna að leggja og sína sögu að segja. Hér birtast þær ljóslifandi og sýna að þær falla fæstar að vestrænu staðalímyndinni. Höfundur tekur efnið afar nýstárlegum tökum í þessari óvenjulegu en skemmtilegu bók og varpar nýju ljósi á áleitin efni sem eru mjög í deiglunni.

Þetta segir sem sagt á kápusíðu. Rétt er að vekja athygli á að Ólöf Björnsdóttir gerir kápu og mér finnst henni hafa tekist afskaplega vel upp þar.

Bókinni er skipt í kafla eftir löndunum, en byrjað á upphafskafla, hugleiðingum mínum þegar ég sit í fjöruborðinu í Salalah í Óman, daginn sem innrásin í Írak hófst. Fyrri veturinn sem ég vann að bókinni var því í aðdraganda stríðsins og það var afar sérkennilegur tími.
Þarna leiði ég líka til sögunnar hina írösku Bosru sem seinna kemur aftur við sögu.
Síðan er haldið til Sýrlands og talað þar við Mahe lyfjafræðing sem rak litla lyfjabúð skammt frá þeim stað í Damaskus sem ég bjó þann vetur. Zamal, kennari og blaðamaður er næst, hún er drúsi og býr við óvenjulegar fjölskylduaðstæður. Loks er svo Búþeina, ráðherra og rithöfundur en hana eltist ég lengi við að ná í eftir að hafa lesið bók eftir hana sem vakti mikinn áhuga minn og er athyglisverð lesning.


Í Egyptalandi er talað við Safi, unga stúlku sem vinnur hjá útgáfufélagi Bandaríska háskólans í Kairó, Amal sem hefur flutt að heiman í trássi við vilja fjölskyldu sinnar, Rödu formann egypskra kvennasamtaka. Í þeim kafla er einnig rifjuð upp saga Röndu og Maryam sem ég sagði frá í Insjallah og hvernig þeim hefur reitt af þessi ár sem síðan eru liðin. Loks við Fötmu hressa og opinskáa stúlku sem hefur lokið hagfræðiprófi en hyggur á framtíð utan Egyptalands af ástæðum sem hún lýsir af hreinskilni.

Í Óman gekk ég á vit hinnar eftirminnilegu Fatímu mirrudrottningar og einnig ræddi ég þar við Zinu sem rak litla saumastofu, Minu, stúlku á netkaffi, Þömnu hálffertuga stúlku, sem segir frá fjölskylduaðstæðum og draumum sínum um að verða skáld og blaðamaður. Þá mæta til sögunnar þingkonurnar Rahila og Ludjana en sú fyrrnefnda þótti mér undralík Rannveigu alþingismanni Guðmundsdóttur. Einnig hitti ég þar Suad námsráðgjafa háskólans og Sölmu hjartalækni.

Þegar að Jemen kemur rekur á fjörur mínar fjórtán ára kaupkonu í Þúla sem situr með lingvafónnámskeið og lærir ensku til að geta talað við ferðamennina - ef og þegar þeir koma einhvern tíma. Húda sagði mér frá baráttu sinni við að fá að læra, Nima brýtur upp frásögn með nokkuð sérstæðum hætti, þá tala ég við Britu´þýsku sem hefur búið í Jemen með manni sínum jemenskum um árabil og hefur sína hlið á málunum og loks enda ég á Monu kennara sem hefur slitið trúlofun við frekan kærasta osfrv.

Í lokakaflanum er ég í Amman í Jórdaníu. Þá er nákvæmlega ár liðið frá því stríðið hófst og ég hitti þar Widad frá Írak sem er á leið til Bandaríkjanna.

Bókin er fjarri því að vera viðtalsbók því ég flétta inn í mannlífslýsingar og segi frá fleirum en hér eru upp taldir. Sagt töluvert frá löndunum, stjórnarfari og sögu án þess þó að hafa það þungmelt.

Ég er mjög þakklát konunum sem hjálpuðu mér með því að tala við mig og þær voru raunar miklu fleiri en upp eru taldar því einatt notaði ég upplýsingarnar sem ég fékk sem hluta í almennri frásögn. Mér fannst merkilegt hvað konurnar voru fúsar að deila með mér hugsunum sínum og tilfinningum og fannst ávinningur að því að kynnast þeim.

Síðan bókin kom út hefur hún selst ákaflega vel og það er mér hið mesta gleðiefni eins og geta má nærri.
Mér finnst ástæða til að þakka sérstaklega alla þá hjálp sem Stefanía R. Khalifeh, ræðismaður í Amman veitti mér þennan tíma, Lan og Magnús Magnússon og Sigrún Valsdóttir í Kairó og Rosemary Hector og Chris Beal í Óman svo að örfáir séu nefndir af mörgum.

Ég fékk góðan yfirlesara hjá Máli og menningu, Ólöfu Eldjárn sem var afar notaleg við mig og nákvæmur yfirlesari.
Linda Vilhjálmsdóttir og Guðrún Eva Mínervudóttir lásu handritið á ýmsum stigum og veittu mér mikla og góða hjálp, stíft og inspírerandi aðhald. Á seinni stigum lásu yfir Eygló Yngvadóttir, Valgerður Kristjónsdóttir og Guðrún S. Gísladóttir. Reyndist hver og ein mér hjálparhella hver á sinn hátt.
En mig langar samt að þakka dóttur minni, skáldkvinnunni Elísabetu Jökulsdóttur alveg spes, fyrir ómetanlega hjálp, hikstalausar og uppbyggilegar útásetningar, en oft líka hrós og alltaf hvatningu.

Svo vona ég að allir þjóti nú til og haldi áfram að kaupa og kannski verður bókin til að skýra ýmislegt og opna fyrir nýjar hugmyndir um þennan heim.